Samningur um lífsstíl sem sparar orku og peninga

EvaMaria300Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar og Landvernd hafa gert með sér samning til þriggja ára um verkefnið Vistvernd í verki. Samstarfið við borgina er einkar ánægjulegt fyrir Landvernd en það mun felast í því að gera borgarbúum kleift að sækja námskeið þar sem fólki er kenndur lífsstíll sem sparar bæði orku og peninga. Á námskeiðunum er unnið með ákveðna þætti í heimilishaldinu s.s. hvernig best sé að spara vatn, rafmagn, flokka úrgang, nýta hráefni og draga úr mengun frá ökutækjum. Innkaup eru einnig tekin til endurskoðunar og fjallað um umhverfismerkingar og gildi þeirra. Á námskeiðunum er lögð áhersla á að þátttakendur vinni að viðfangsefni sínu skref fyrir skref og með það í huga að „enginn getur gert allt en allir geti gert eitthvað.“

Umhverfis- og samgöngusvið mun ennfremur bjóða starfsmönnum að taka þátt í námskeiðum Vistverndar í verki og greiða leið verkefnisins innan borgarinnar. Visthópastarf hefur mikið og gott félagslegt gildi og er það ekki síst vegna þess sem borgin tekur þátt í verkefninu.

Starf Vistverndar í verki byggir á markmiðum um sjálfbæra þróun og er einkar vel til þess fallið að hjálpa til við að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu borgarinnar að mjaka sveitarfélaginu í átt að sjálfbæru samfélagi. Samstarfið við Reykjavíkurborg er afar mikils virði fyrir Landvernd og markar samningurinn vonandi upphafið af nýrri sókn í umhverfismálum.

Á döfinni hjá Vistvernd í verki er námskeið fyrir leiðbeinendur og verður það haldið dagana 18.-20. september.

Nánari upplýsingar og skráning á námskeið á heimasíðu Landverndar: www.landvernd.is/vistvernd
Einnig hjá Sigrúnu Pálsdóttur, verkefnisstjóri Vistverndar í verki í síma 552 5242.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband