Á ferð um eitthvert magnaðasta eldsumbrotasvæði sögunnar

Nú styttist í vettvangsferð Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Græna netsins um eitthvert magnaðasta eldsumbrotasvæði veraldarsögunnar, Skaftárhrepp og nærsveitir. Sigmundur Einarsson jarðfræðingur verður leiðsögumaður í ferðinni og mun hann fara með ýmsan fróðleik um virkjunaráform í Skaftárhreppi og umhverfisáhrif þeirra. Einnig fjallar Sigmundur um eldgosið í Eyjafjallajökli, sögu Kötluhlaupa, eldgos í Eldgjá í upphafi 10. aldar, Skaftáreldahlaup og áhrif þeirra á Skaftárhraun svo eitthvað sé nefnt.

Lagt verður í ferðina frá BSÍ kl. 9.00 laugardaginn 11. og er búist við heimkomu kl. 19.00 sunnudaginn 12. sept.
Hópurinn gistir í svefnpokaplássi í skálanum í Hólaskjóli sem er fjallaskáli skammt frá Eldgjá. Ferðafélagar taka með sér nesti fyrir báða dagana, heitt á brúsa og lítinn bakpoka til gönguferða. Boðið verður upp á kvöldverð sem er innfalinn í verði. Við reynum að ganga þar sem færi gefst til að ferðafélagar fái hæfilega hreyfingu. Veðurútlit um helgina er ágætt.

Kostnaður vegna rútu, gistingar og kvöldverðar er kr. 16.900 sem greiðast inn á reikning Græna netsins. Bankaupplýsingar og kennitala: 303-26-41110; 411107-1240

Allar nánari upplýsingar veitir Sigrún Pálsdóttir í síma 866 9376 eða 552 5242

ENN ERU NOKKUR SÆTI LAUS - LÁTIÐ BOÐIN BERAST!


Töfrar Torfajökuls - hverir, laugar og líparítfjöll í ágúst

Katrín og Viktoría klífa tinda í Kerlingarfjöllum

Landvernd hefur nú bætt við einni jarðfræðiferð til viðbótar um Torfajökulssvæðið 13.-15. ágúst en fyrri ferðin 7.-9. er uppbókuð. Leiðangurinn er eins og hinn fyrri skipulagður í samvinnu við Hálendisferðir og farinn í fylgd jarðfræðinganna Sigmundar Einarssonar og Kristjáns Jónassonar.

Á Torfajökulssvæðinu, sem er eitt mesta háhitasvæði í heimi, er stórbrotið landslag hvera, lauga og líparítfjalla. Svæðið er víðáttumikið og sum þeirra svæða sem við skoðum eru lítt þekkt þrátt fyrir að Laugavegurinn, fjölfarnasta útivistarsvæði hálendisins, liggi þar um.

Gist verður í tvær nætur í Dalakofanum í Vestur-Reykjadölum og allur matur innifalinn.Enn eru nokkur sæti laus og hægt að bóka sig í síma 8640412 eða með tölvupósti info@halendisferdir.is

Tilgangurinn með ferðinni er sem fyrr að skoða hið stórfenglega landslag háhitasvæðisins frá sjónarhorni náttúruverndar. Jarðfræðingarnir Kristján og Sigmundur starfa hjá Náttúrufræðistofnun og höfðu þeir með höndum að rannsaka svæðið út frá verndargildi þess í tengslum við gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem nú er til afgreiðslu á þingi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ferð á háhitasvæði í fjallaþyrpingu Kerlingarfjalla 24. júlí

oskarhver2Helgina 24.-25. júlí blása Landvernd og Hálendisferðir til jarðfræðiferðar í Kerlingarfjöll í fylgd Sigmundar Einarssonar og Kristjáns Jónassonar jarðfræðinga hjá Náttúrufræðistofnun. Tilgangur ferðarinnar er að skoða hið afar litríka háhitasvæði frá sjónarhorni náttúruverndar en Kristján og Sigmundur höfðu með höndum að rannsaka svæðið út frá verndargildi þess í tengslum við gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem nú er til afgreiðslu á þingi.

Gist verður eina nótt í Kerlingarfjöllum. Um er að ræða tjaldferð en einnig er hægt að bóka gistingu í skála sé þess óskað. Boðið verður upp á kvöldverð á komudegi, morgunverð og nesti seinni daginn.Enn eru nokkur sæti laus og hægt að bóka sig í ferðina á www.halendisferdir.is

Tilhögun ferðarinnar er með þeim hætti að fyrri daginn hittist hópurinn kl. 9 á BSÍ þaðan sem ekið verður að Ásgarði í Kerlingarfjöllum þar sem við tjöldum og snæðum hádegisnesti. Að því loknu verður gengið á Fannborg og Snækoll. Þaðan er frábært útsýni yfir Efri-Hveradali og fjallaklasann í heild sinni. Þar verður jarðfræði svæðisins útskýrð ásamt tengingu við landið umhverfis Kerlingarfjöll. Að göngu lokinni bíður okkur sjóðheit kjötsúpa að hætti Stínu Páls í tjaldbúðum.

Seinni daginn verður gengið suður í Hveradali og skoðaðar ýmsar gerðir af hverum, þar á meðal miklir brennisteinshverir. Þegar kemur suður að Grænutjörn verður haldið upp fyrir Löngufönn og gengið eftir fjallsrimanum vestan við Hveradali til baka. Riminn er jafnframt öskjubrot. Á leiðinni er horft niður í Hverabotn og einnig fæst gott útsýni til líparítfjallanna í austri og vestri. Göngunni lýkur við Þröskuld þaðan sem ekið verður tilbaka til Reykjavíkur.

Hálendisferðir sjá um bókanir í síma 864 0412 (9-17) og 561 4012 (kl. 9-14)

Nánari upplýsingar sjá: www.halendisferdir.is

Myndin er úr myndasafni Hálendisferða. 


Jarðfræðiferð á Ölkelduháls, í Reykjadal og Bitru 13. júní

Nú er komið að annarri ferð Landverndar og Ferðafélagsins um jarðhitasvæði í næsta nágrenni höfuðborgarinnar. Að þessu sinni verður litast um á Hellisheiði og Ölkelduhálsi áður en gengið verður niður í Reykjadal en um hann rennur ein af glæsilegri varmám landsins, Reykjadalsá. Þar gefst göngufólki kostur á að hvíla lúin bein og baða sig í ylvolgri ánni. Þaðan verður gengið áfram niður dalinn og upp Hverakjálka til baka. Jarðskjálftasprungur skoðaðar á Bitru.
Leiðsögumenn í ferðinni eru jarðfræðingarnir Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson. Áður en lagt verður í ferðina flytur Kristján stutt erindi um svæðið í sal Ferðafélags Íslands að Mörkinni 6.
Erindið hefst kl. 10 og verður lagt af stað í ferðina kl. 10.30 og komið tilbaka um kl. 16-17.00.
Skráning fer fram á skrifstofu Ferðafélagi Íslands til kl. 17.00 í síma 568 2533 eða með netpósti til fi@fi.is.

Rútugjald er kr. 2500.-

Rétt er að taka fram að engin aðstaða er á staðnum til að skipta um föt sem með smá hagræðingu ætti þó ekki að koma að sök. Við minnum ferðalanga á að taka með nesti, baðföt og handklæði.

Áfangastaðir Landverndar og Ferðafélagsins í sumar eiga það sammerkt að búa yfir einstakri náttúrufegurð, auk þess að vera álitnir gjöful orkuvinnslusvæði. Tilgangur okkar er að fræðast um jarðfræði á suðvesturhorninu, skoða hvernig framkvæmdaraðilar ganga um orkuvinnslusvæðin og njóta um leið útivistar í einkar sérstæðri náttúru.

Hugmyndir um að stofna eldfjallagarð á Reykjanesi hafa lengi verið við lýði og má lesa sig til um það efni á vef Landverndar.

Náttúruvernd á krossgötum - vörn og sókn

Dagskrá náttúruverndarþings

Náttúru- og umhverfisverndarsamtök á Íslandi boða til náttúruverndarþings í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð laugardaginn 24. apríl nk. kl. 10.00-15.30.

Náttúruverndarþing er haldið til að leiða saman alla þá sem hafa áhuga á umhverfis- og náttúruverndarmálum. Markmiðið er að skapa öflugan grundvöll samstarfs og umræðu um málefni og baráttuaðferðir náttúruverndarfólks og náttúruverndarsamtaka á Íslandi.

Dagskrá náttúruverndarþings er tvíþætt. Fyrri hluti þingsins verður helgaður þeim verkefnum sem verið hafa til skoðunar og mest hefur borið á í umræðunni að undanförnu. Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur setur þingið. Fyrst á dagskrá er síðan ávarp umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur. Að því búnu flytur Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur erindi um verndun jarðminja á framkvæmdasvæðum. Þá tekur til máls Katrín Theódórsdóttir, lögmaður og fjallar hún um löggjöf um náttúruvernd og rammaáætlun og þvínæst Einar Ó. Þorleifsson, náttúrufræðingur um endurheimt votlendis og loftslagsbreytingar. Þegar nær dregur hádegi verður sjónum beint inn á við. Fyrstur talar Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands um stöðu náttúruverndar og að lokum slær Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar botninn í fyrsta hluta þingsins með því að velta fyrir sér þýðingu náttúruverndarsamtaka og mikilvægi þeirra í nútíð og framtíð.

Seinni hluti þingsins verður að hætti Heimskaffis helgaður málstofum um verkefnin framundan og leiðir til að takast á við þau.Mikilvægt er að náttúruverndarfólk fjölmenni á þingið til að leggja á ráðin og hafa áhrif á þróun náttúruverndar á Íslandi til framtíðar.

Boðið verður upp á kaffiveitingar. Súpa og brauð í hádeginu gegn vægu verði.

ALLIR VELKOMNIR!

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku til Landverndar í síma 552 5242 eða með pósti til sigrunpals@landvernd.is

Upplýsingar hjá Einari Ó. Þorleifssyni í síma 857 2161 og Sigrúnu Pálsdóttur í síma 552 5242/866 9376Þingið er haldið á vegum helstu náttúruverndarsamtaka á Íslandi í dag.

Hugmyndin er að halda náttúruverndarþing frjálsra félagsamtaka annað hvert ár í framtíðinni.

 


Landvernd harmar árásir á umhverfisráðherra

Yfirlýsing frá Landvernd vegna áforma um byggingu álvers í Helguvík

Stjórn Landverndar harmar linnulausar árásir fylgjenda byggingar álvers í Helguvík á umhverfisráðherra landsins undanfarið og skorar á hlutaðeigandi aðila að útskýra fyrir þjóðinni hvernig það þjóni hagsmunum Íslendinga að verja nær allri orku sem hugsanlega eftir stendur á Suður- og Suðvesturlandi til einnar verksmiðju í þungaiðnaði. Samtökin beina þessari fyrirspurn til þeirra aðila vinnumarkaðarins sem hafa haft sig í frammi, til Norðuráls, til HS Orku, til Orkuveitu Reykjavíkur, og til viðkomandi sveitarfélaga og alþingismanna. Þá hvetja samtökin landsmenn alla til að hlusta á unga fólkið sem á að erfa landið og til að gera boðskap nýafstaðins Umhverfisþings um sjálfbært Ísland að sínum. Áform um álver í Helguvík gera ráð fyrir einu stærsta álveri í Evrópu með 360.000 tonna framleiðslugetu og gífurlegri orkuþörf eða allt að 630 MW. Til samanburðar var framleiðslugeta álvers Ísal í Straumsvík 33.000 tonn þegar það tók til starfa árið 1969 og er því fyrirhugað álver í Helguvík um 11 sinnum stærra. Landvernd bendir á að ekki hefur verið sýnt fram á hvernig á að afla nægilegrar orku til svo stórs álvers, hvað þá hvernig flytja á orkuna frá stórum fjölda orkuvinnslusvæða til Helguvíkur án þess að valda verulegu eignatjóni á friðuðum svæðum og spilla ásýnd Reykjanesskagans með tröllvöxnum háspennulínum. Minnt er á að sum þeirra orkuvinnslusvæða sem horft er til hafa verndargildi á heimsvísu. Landvernd minnir enn og aftur á að hagvöxtur og náttúruvernd eru ekki andstæður heldur, þvert á móti, er umhverfis- og náttúruvernd forsenda efnahagslegar og samfélagslegar velmegunar til lengri tíma litið. Hægt er að byggja upp blómlegt atvinnulíf á Íslandi án þess að valda alvarlegum spjöllum á náttúru landsins. Nýting orkuauðlinda þarf ekki að fela í sér stórkostleg náttúruspjöll. Vanda þarf til verka, bæði hvað varðar val á verkefnum sem og stjórnsýslu og átta sig á heildaráhrifum áður en lagt er af stað. Einnig þarf að kunna sér hóf. Í stað þess að ráðast í 360.000 tonna álver í Helguvík er mun vænlegra fyrir íslenskt samfélag og efnahag að takmarka stærð væntanlegs álvers við það sem orkulindir og náttúra landsins geta borið.

Ferð í fuglafriðland undir Akrafjalli

Veður á morgunNú líður að ferð Landverndar, Fuglaverndar og Græna netsins í fuglafriðlandið við Grunnafjörð. Veðurspá er góð en fremur lágt hitastig og því mikilvægt að vera vel klæddur og vel skóaður með nesti. Við leggjum af stað kl. 10 á morgun laugardag 3. október frá BSÍ og gerum ráð fyrir samanlagt tveggja og hálfs tíma göngu.
Rútan stoppar á afleggjaranum við Arkarlæk og tekur upp í farþega af svæðinu. Gerum ráð fyrir að vera þar kl. 10.50.

Minnum farþega á kíkinn, fuglabókina og myndavélina ef vill. Fargjald er kr. 1800 og biðjum við ykkur að greiða það í peningum. Þeir sem koma í rútuna við Akrafjall greiða kr. 1000.

Skráning í ferðina hjá Sigrúnu: sigrun.pals@simnet.is eða í síma 866 9376.

Fyrir þá sem greiða í heimabanka: 303-26-41110; kt.: 411107-1240


Farfuglinn flýgur - ferð í fuglafriðland

Á laugardaginn, 3. október, efna Landvernd, Fuglavernd og Græna netið til vettvangsferðar í Grunnafjörð að skoða friðland fugla og hugsanlegar vegaframkvæmdir. Ferðin hefst kl. 10 og komið aftur í bæinn síðdegis. Leiðsögumaður er Einar Þorleifsson hjá Fuglavernd en Mörður Árnason gerir grein fyrir framkvæmdahugmyndum og áhrifum þeirra á fuglalíf og náttúrufar. 

margaesirKannaðar verða fuglaslóðir í Grunnafirði/Leirárvogi og Blautósi vestan Akrafjalls. Um er að ræða einstakt fuglasvæði þar sem þúsundir farfugla hafa viðkomu um þetta leyti árs. Vænta má mikils fjölda margæsa. Stærsti tjaldahópur landsins heldur þarna til, og að auki geta ferðalangar búist við að sjá stóra hópa af lóum og ýmsar tegundir vaðfugla.  Ernir og fálkar eru þarna tíðir gestir og nær dagleg sjón.

Grunnafjörður er friðaður og skilgreindur sem Ramsarsvæði og nýtur því alþjóðlegar verndar.  Blautós er einnig friðaður.Undanfarin ár hafa verið uppi hugmyndir um vegagerð á svæðinu með brú yfir ós Grunnafjarðar. Fyrrverandi umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, féllst ekki á slíkar ráðagerðir í skipulagi sveitarfélaganna við svæðið í ágúst 2007 og varð því ekki úr framkvæmdum en fyrir nokkru kynnti Vegagerðin síðan nýjar tillögur um að leggja hringveginn yfir Grunnafjarðarós. Í ferðinni verður gerð grein fyrir þessum hugmyndum og áhrifum hugsanlegra framkvæmda á fuglalíf og náttúrufar á svæðinu.

Farið verður frá BSÍ á laugardaginn, 3. október kl. 10.00 og er áætlaður komutími til Reykjavíkur aftur milli 16 og 17. Þátttökugjald er 1800 krónur, skráning í netfanginu sigrunpals@landvernd.is og í síma 866 9376 (Sigrún) fram á föstudag.

Mælum með að ferðalangar taki með kíki og fuglabók ef til er, og nesti til ferðarinnar. Stutt stopp verður gert á Akranesi ef óskað er. 

Komið með í áhugaverða og skemmtilega haustferð út í náttúruna! 


Ákvörðun um Suðvesturlínu felld úr gildi

ReykjanesfolkMyndUmhverfisráðherra hefur fellt úr gildi þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 25. mars 2009 að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar Suðvesturlínur og öðrum framkvæmdum sem tengjast álveri í Helguvík. Málinu hefur verið vísað til stofnunarinnar á ný til efnislegrar meðferðar og úrlausnar.

Niðurstaða þessi beinir sjónum að því að ekki er búið að tryggja orku fyrir 360 þúsund tonna álver í Helguvík eins og lagt er upp með, og hvort skynsamlegt sé að ráðast í svo stórt álver. Einnig beinir niðurstaðan sjónum að þeim töluverðu náttúruspjöllum sem Suðvesturlínur munu hafa í för með sér ef af verður, en línurnar eiga að flytja orku frá Hellisheiði til Helguvíkur. Frá sjónarhóli náttúruverndar, og til að eiga orku til framtíðar, telur Landvernd að mun minna álver í Helguvík væri skynsamlegri lausn.

Úrskurður ráðherra

Frétt umhverfisráðuneytis


Vistverndarfólk hressir upp á leiðbeinendataktana

Forsíða SkrefVið hjá Vistvernd í verki höfum mikinn hug á að halda uppi öflugu visthópastarfi. Fjöldi fólks er nú á biðlista eftir að komast í visthóp og vantar okkur því leiðbeinendur. Sumir hafa kvartað yfir því að vera farnir að ryðga í fræðunum. Til að ráða bót á því höfum við því ákveðið að bjóða upp á örnámskeið og spjall fyrir leiðbeinendur Vistverndar í verki mánudaginn 5. október kl. 20.00 hjá Sirru í Farfuglaheimilinu í Laugardal.
 
Bryndís Þórisdóttir, áður verkefnisstjóri hjá Vistvernd í verki, stýrir spjallinu og rifjar upp fræðin.
 
Til að stuðla að endurnýjun í leiðbeinendastétt ætlum við líka að halda námskeið í lok október og verða sendar út upplýsingar þegar nær dregur. 
 

Skráning hjá vistvernd@landvernd.is eða í síma 552 5242


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband